Kerið

Fyrir nokkrum árum þegar ég var að sýna landið erlendum ferðamönnum, komum við að Kerinu sem ávallt vekur mikla kátínu meðal fólks. Einn ferðamaður spurði mig hvort þessi gígur væri kominn til vegna loftsteins sem skall á jörðina. Hissa neitaði ég því, gígurinn hefði myndast við sprengingu að neðan.

IMG_3088

Þó svo að ég furðaði mig pínulítið á því að einhver haldi að sprengigígur gæti verið loftsteinagígur, þá er einmitt þetta tilfellið fyrir marga sprengigíga, bæði á jörðinni og á öðrum hnöttum – að því sé almennt haldið fram að margir gígar sem raunverulega hafa myndast "að neðan" hafi myndast "að ofan".

IMG_2800 (Edited)

Þessi mynd er tekin að ofan, horft niður í blöndunartækið mitt ofan á morgunmatinn minn. Augljóst er að hinar sjáanlegar holur stafa af lofti sem sogast niður í blöndunina og sem kemur upp þegar slökkt er á tækinu og myndast þá þessir gígar.

Gígar eru af tvenns konar tagi, annars vegar þegar eitthvað dettur niður og myndar sár (gíg) og hins vegar þegar eitthvað kemur að neðan upp á yfirborðið. Í báðum tilfellum er hægt að tala um sprengigíg. Myndun gíga hefur ekki verið rannsakað mikið en menn hafa gert ráð fyrir eða í raun ákveðið að fjöldinn allur af gígum séu loftsteinagígar þegar þeir í rauninni eru það ekki. Árekstrargígar eða loftsteinagígar hafa þó sitt kennileiti, en um þetta mun ég fjalla í annarri færslu bráðlega.

En hvað með Kerið? Ef það væri ekki staðsett á Íslandi, hefðu menn þá dæmt það sem loftsteinagíg? Á heimasíðunni www.kerid.is má finna þessa útskýringu á myndun Kersins:

Eldfjallafræðingar töldu áður fyrr að Kerið væri sprengigígur. Sprengigígar verða til í sprengigosum, sem geta myndað djúpa gígkatla. Auknar rannsóknir í Grímsnesi hafa ekki leitt í ljós neitt gjóskulag sem hægt er að rekja til sprengigosa í Kerinu. Eldfjallafræðingar telja frekar að Kerið hafi upphaflega verið allstór gjallgígur.

Jarðfræðingar segja sem sagt að upp hafi komið kvika í eldsumbrotum, „allstór gjallgígur“ myndast, kvikuþróin síðan tæmst og gígurinn (fellið) hrunið niður í þessa holu sem Kerið nú er. Hvar er þá allt gjall eldgossins? Rannsóknir leiddu ekki „í ljós neitt gjóskulag“ og hinn „allstóri gígur“ er horfinn í stórri holu sem fyrir gos var sléttlendi. Á sömu heimasíðu finnum við þennan texta:

Gígurinn eins og hann lítur út nú hefur sennilega orðið til þannig að undir lok eldgossins hefur lítil kvikuþró undir gígnum tæmst og hafi það haft hrun í för með sér. Neðan vissra marka eru holur og glufur bergsins fylltar vatni sem nefnist grunnvatn en yfirborð þess grunnvatnsflötur. Í Kerinu er afrennslislaust stöðuvatn þar sem vatnsyfirborðið fellur saman við grunnvatnsflötinn og er háð sömu sveiflum og hann. Gígurinn er því eins og gluggi niður í grunnvatnið.

Ef maður er fastur í kreddukvikunni er kannski ekki óeðlilegt að draga þá ályktun að „sennilega“ hafi Kerið myndast á þennan hátt, en ný þekking úr UM varpar nýju ljósi á gígum á borð við Kerið.

Jörðin er vatnspláneta, þ.e. það er mikið magn af vatni undir yfirborði jarðar. Í Kerinu er stöðuvatn sem fellur saman við grunnvatnið og er gígurinn „því eins og gluggi niður í grunnvatnið.“ Vatn hefur ótrúlega mikinn sprengikraft ef það nær snögglega yfir suðumarki. Gufusprengingar geta verið gífurlega öflugar og mynda þær svokallaða vatnsgíga (hydrocraters). Þó nokkrir vatnsgígar fyrirfinnast á Íslandi.

Til þess að skilja myndun vatnsgíga, vísa ég í myndun gervigíga en eftirfarandi mynd er tekin úr heimasíðu Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn. Vinstri hluti myndarinnar er upprunalegur en hægri hliðin er breytt útgáfa til útskýringar á vatnsgígum. Munurinn á þessum tveimur fyrirbærum er að við gervigíga rennur hraun yfir vatn en við vatnsgíg kemur hraunið að vatninu að neðan eða myndast jafnvel mitt í því.

Gervigígar_skyring

Næsta mynd sýnir þetta kannski betur.

7.8.2

Vatnsgufa er sá sprengikraftur sem mörg eldgos og öll sprengigos fá kraft sinn frá.

Kerið er vatnsgígur, myndaður úr sprengikrafti gufu. Vatnsgufa þenst út 1700 sinnum rúmmál sitt úr vatni við venjulegan loftþrýsting. Krafturinn við fasaskipti vatns úr vökva í gufu er gífurlegur og kemur oft fyrir í náttúrunni. Þetta er sama fyrirbærið og þegar við setjum pott á blauta eldhúshellu og kveikjum á. Vatnsgufan sem myndast þrýstir sér út og við heyrum bank þegar potturinn lyftist undan gufunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband