Flóðkraftar valda eldgosum
24.4.2017 | 13:15
Flóðkraftar eru þeir kraftar sem valda flóð og fjöru, en þetta eru í raun aðdráttarkraftar frá öðrum hnöttum. Í tilfelli jarðar okkar er það aðallega tunglið en einnig sólin sem togar í jörðina, þannig að sú hlið sem snýr að þeim hnetti togar sjóinn til sín. Sjórinn bungar út á þeirri hlið sem snýr að tunglinu, en það köllum við flóð. Við nýtt tungl toga tunglið og sólin samtaka í sömu átt og kallast það stórstreymi. Á jörðinni er mestur munur á flóði og fjöru tæplega 17 metrar í Fundyflóa í Kanada en á Íslandi er munurinn mestur rúmir 4 metrar við stórstreymi á nokkrum stöðum við Breiðafjörð. Stjörnufræðivefurinn útskýrir þetta fyrirbæri mjög vel, sjá hér.
Ef flóðkraftar eru nægilega stórir til að lyfta sjóinn um allt að 17/2 = 8,5 metra (sekkur um það sama í fjöru), hvað þá með meginlöndin? Hafa flóðkraftar engin áhrif á þau?
Meginlöndin, líkt og sjórinn, hafa líka "flóð" og "fjöru" vegna flóðkrafta og lyftast og síga þau um 20 cm daglega! Þegar þetta gerist við flekaskil og misgengi, myndast mikill núningur og margir jarðskjálftar. Hitinn úr þessum núningi veldur staðbundnu bráðnum jarðskorpunnar sem eru upptök jarðvarma og eldgosa.
Þetta ætti ekki að hljóma undarlega, enda er einmitt þetta útskýring á því hvers vegna t.d. Íó, eitt af Galíleótunglum Júpíters, er eldvirkasti hnöttur sólkerfisins.
Í Nútíma stjörnufræði eftir Vilhelm S. Sigmundsson segir:
Lögun hnattarins breytist sífellt þannig að mikill núningsvarmi myndast inni í Íó... Þessi núningur flóðkrafta skýrir hvernig Íó getur viðhaldið svo mikilli eldvirkni. (2010, bls. 82).
Flóðkraftar valda eldvirkni, það er náttúrulögmál. Þetta, og ekkert annað er að valda eldgosum á Íslandi og annarsstaðar á jörðinni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bindi I - Kafli 5, Vísindi og fræði | Breytt 19.2.2018 kl. 21:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.